Þýski framherjinn Thomas Müller hefur ekki verið á skotskónum á EM í Frakklandi en það truflar hann ekki á meðan þýska liðinu gengur vel.
Müller segist vera meira en til í að fara markalaus heim eftir mótið svo lengi sem Þýskaland vinni það. Þrátt fyrir aragrúa færa hefur Müller ekki enn skorað á EM.
„Ég er ekki drifinn áfram á mörkum. Það sem drífur mig áfram er hungur í árangur,“ sagði Müller á blaðamannafundi í Frakklandi í dag.
„Auðvitað væri ég til í að vera búinn að skora en í Suður-Afríku var ég markahæstur á HM, missti af undanúrslitunum í banni og við fórum heim. Ég skemmti mér miklu betur í Brasilíu. Mark myndi auðvitað hjálpa mér því þá þyrfti ég ekki stanslaust að svara þessum spurningum.“
Þýskaland spilar í undanúrslitum EM gegn Frakklandi á fimmtudag.
