Innlent

Mikil hræðsla greip um sig á aðdáendasvæðinu í París vegna sprenginga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá aðdáendasvæðinu í París í liðinni viku.
Frá aðdáendasvæðinu í París í liðinni viku. vísir/epa
Flugeldar voru sprengdir á aðdáendasvæði Evrópumótsins í París í kvöld, svokölluðu Fan Zone, en fjöldi Íslendinga var samankominn á svæðinu enda eru margir Íslendingar í París vegna landsleiksins við Frakka sem fram fer á morgun. Fótbolti.net greindi frá málinu.

Mikil hræðsla greip um sig á svæðinu ef marka má færslur fólks sem var á svæðinu á Twitter. Þannig setti Guðjón Baldvinsson, knattspyrnumaður í Stjörnunni, inn færslur á Twitter frá aðdáendasvæðinu þar sem hann segir litla sprengingu hafa orðið á svæðinu og í kjölfarið hafi orðið algjört uppþot á staðnum.

Íslendingur sem Vísir ræddi við sem var á svæðinu segir að mikil hræðsla hafi gripið um sig vegna sprenginga sem síðar hefur komið í ljós að voru að öllum líkindum flugeldar. Fólk þusti út af svæðinu en hann segir reyk hafa lagst yfir og að fólki hafi verið mjög brugðið.

Mörgum er eflaust í fersku minni hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember síðastliðnum en gríðarlega öryggisgæsla í Frakklandi meðan á Evrópumótinu stendur. Þannig er leitað á öllum sem fara inn á aðdáendasvæðin og velti viðmælandi Vísis því fyrir sér hvernig einhver hafi komist með flugelda inn á svæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×