Erlent

Þjóðverjar setja pressu á nýjan forsætisráðherra Bretlands

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Merkel og May.
Merkel og May. Vísir/Getty
Leiðtogar Þýskalands lögðu í dag áherslu á að Theresa May, tilvonandi forsætisráðherra Bretlands, myndi drífa sig í því að kynna hvernig Bretland ætli sér að standa að útgöngunni úr Evrópusambandinu.

„Hlutverk hins nýja forsætisráðherra verður að svara þeirri spurningu hvernig samband Bretland vill við Evrópusambandið,“ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á blaðamannafundi fyrr í dag.

Undir orð hennar tók Wolfgang Schaeuble fjármálaráðherra sem sagði að mikilvægt væri að eyða þeirri óvissu sem nú væri uppi eftir ákvörðun Bretlands um að yfirgefa Evrópusambandið og því þyrfti að hefja viðræður sem fyrst.

May tekur við stjórnartaumunum í Bretlandi á morgun af David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra. Hennar bíður það hlutverk að sjá um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sem búist er við að verði afar flókið ferli en ekkert ríki hefur áður sagt sig úr sambandinu.

Yfirvöld í Bretlandi hafa áður sagt að ekkert liggi á því að hefja viðræður um útgönguna en leiðtogar Evrópusambandsríkjanna virðast áfjáðir í það um að gengið verði frá skilmálum útgöngunnar sem fyrst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×