Innlent

350 verkefni á borði lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku

Atli Ísleifsson skrifar
Framundan er mesta ferðahelgi ársins.
Framundan er mesta ferðahelgi ársins. Vísir/Pjetur
Lögreglan á Suðurlandi kom að 350 verkefnum í síðustu viku að því er fram kemur á vef embættisins. Þar segir að eftirlit hafi verið mjög öflugt þar sem sérstaklega var gert út á hálendið, uppsveitir Árnessýslu og á milli Kirkjubæjarklausturs og Hafnar í Hornafirði.

Umferð í umdæminu hefur verið mjög mikil enda margir á faraldsfæti, jafnt Íslendingar sem erlendir ferðamenn, og segir að hún hafi í heildina gengið vel, þrátt fyrir að lögregla hafi komið að ellefu umferðaróhöppum.

„Öll voru minni háttar utan eitt sem varð á Suðurlandsvegi á vegarkafla við Ölfusborgir um sjö leytið í gærkvöldi þar sem fólksbifreið lenti fyrir jeppabifreið á austurleið. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var einn í bifreiðinni og slasaðist alvarlega. Í jeppabifreiðinni voru þrír sem hlutu minni háttar meiðsli og voru flutt til skoðunar á heilsugæslustöðina á Selfossi. Áreksturinn og aðdragandi hans er í rannsókn.“

Framundan er verslunarmannahelgin og segist lögregla gera ráð fyrir að mikilli umferð á Suðurlandi þar sem hún verður að venju með aukið eftirlit með umferð.

„Engar skipulagðar útisamkomur eru í umdæminu. Lögreglumenn á Suðurlandi verða á ferð og til taks vítt og breitt á sínu svæði, í sumarhúsabyggðum, tjaldsvæðum, hálendinu við Landeyjahöfn og annars staðar sem þörf verður á,“ segir í skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×