Innlent

Á annan tug ók of hratt

Nadine Yaghi skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum hefur kært á annan tug ökumanna á síðustu sex dögum.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur kært á annan tug ökumanna á síðustu sex dögum. Visir/Haraldur
Lögregla á Suðurnesjum kærði á annan tug ökumanna fyrir of hraðan akstur í síðustu viku. Sá sem hraðast ók mældist á 139 kílómetra hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. „Þetta er í raun ekkert mjög mikið. Við höfum verið með miklu meira en þetta,“ segir Bjarney Annelsdóttir, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Bjarney segir að um helmingur þeirra sem teknir voru síðustu daga fyrir of hraðan akstur hafi verið erlendir ferðamenn. „Við stöðvum fleiri ferðamenn fyrir of hraðan akstur en áður en það er eðlilegt miðað við fjölgun þeirra.“

Þá voru þrír til viðbótar stöðvaðir vegna gruns um ölvunarakstur. Bjarney segir það háa tölu miðað við venjulega. Loks var ökumaður færður á lögreglustöð þar sem staðfest var að hann ók undir áhrifum fíkniefna. Hann var einnig ökuréttindalaus.

Bjarney bætir við að flestir greiði sekt sína fyrir of hraðan akstur. „Ég myndi segja að um tíu til fimmtán prósent manna greiði ekki. Ferðamenn borga þó nánast alltaf.“

Fréttin birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×