Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, gefur kost á sér í 2 – 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vilhjálmi í dag.
Vilhjálmur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann á nú sæti í efnahags- og viðskiptanefnd, utanríkismálanefnd og EFTA - EES nefnd Alþingis.
„Ég hef á liðnu kjörtímabili einbeitt mér að þeim málum þar sem þekking mín og reynsla hefur komið að bestum notum. Það er á sviði fjármála, efnahagsmála og utanríkismála. Ég hef reynt að höfða til einfaldrar skynsemi við úrlausn mála. Mér er einnig annt um hin gleymda meirihluta í þessu landi, sem engin hefur áhuga á. Mér er enn fremur annt um að Íslendingar eigi kost á vel launuðum störfum við sitt hæfi. Það er hagur ungs fólks að viðhalda öflugu atvinnulífi,“ segir Vilhjálmur í tilkynningunni.
Vilhjálmur hyggst ekki opna kosningaskrifstofu, en hann lýsir yfir áhuga á að hitta stuðningsfólk sitt hvar sem það er að finna.
Prófkjörið fer fram 10. september næstkomandi.
Vilhjálmur stefnir á 2 - 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins
Birta Svavarsdóttir skrifar
