Nýjasta nýtt í þeim efnum, sem gætu haft áhrif á flöktandi fylgið er að ákaflega umdeildur búvörusamningur var samþykktur var á Alþingi í vikunni. Hann gæti að einhverju leyti breytt stöðunni. Margir eru ákaflega reiðir þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna; VG, Pírötum og Samfylkingu, fyrir að hafa setið hjá eða verið fjarstödd – en hins vegar gæti þetta orðið til að styrkja stöðu Bjartrar framtíðar. Sem ekki hefur séð til sólar í skoðanakönnunum um langa hríð. Allir þingmenn Bjartrar framtíðar greiddu atkvæði gegn samningnum.
365 miðlar birtu fyrir viku niðurstöðu skoðanakönnunar um fylgi flokka og helstu niðurstöður eru þær að stór hluti kjósenda er óákveðinn.

Kvennahremmingar Sjálfstæðisflokks
Sjálfstæðisflokkurinn, sem býr líkast til að smurðustu kosningavél sem um getur, er í standandi vandræðum eftir nýafstaðin prófkjör í Suðvestur- og Suðurkjördæmi. Helstu tíðindi sem flutt hafa verið af prófkjörunum þeim eru rýr hlutur kvenna. Konur í flokknum eru ekki með hýrri brá.

Nú þegar aðeins er mánuður til kosninga hefði Bjarni líkast til fremur kosið að geta huggað óánægða Sjálfstæðismenn með gjörðir ríkisstjórnarinnar og þá sótt fram. Því gjörðir ríkisstjórnarinnar, svo sem „Leiðrétting“ og búvörusamningarnir geta ekki hugnast þeim sem aðhyllast stefnu flokksins.
Framsóknarflokkurinn í tómu tjóni
Innanmein Framsóknarflokksins eru slík að vandséð er hvernig þeir geta mætt til kosninga öðru vísi en verulega laskaðir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stefnir ótrauður á að leiða flokkinn í næstu kosningum en vart ætti að þurfa að rekja það hversu umdeildur Sigmundur Davíð er. Fjölmörgum flokksmönnum hugnast það engan veginn að hann sé í öndvegi; þeir sjá ekki að Framsóknarflokkurinn muni ríða feitum hesti frá kosningum, hvað þá að þeir muni eiga hina minnstu von um að komast í ríkisstjórn með hann sem leiðtoga flokksins.

Hvorugur kosturinn er því góður fyrir Framsóknarflokk, að mæta til kosninga skömmu eftir blóðugan formannsslag á flokksþingi sem haldið verður eftir hálfan mánuð, né sá að mæta til leiks með Sigmund Davíð í broddi fylkingar. Framsóknarmenn eru því milli steins og sleggju.
Samfylkingin sér vart til sólar
Hremmingar Samfylkingarinnar virðast engan enda ætla að taka. Þrátt fyrir að eiga að heita leiðtogar stjórnarandstöðunnar, og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hafi verið með afbrigðum óvinsæl – sem auðvitað sýndi sig berlega bæði í tengslum við Wintris-málið þegar uppúr sauð sem og þegar Gunnar Bragi Sveinsson þá utanríkisráðherra sleit einhliða og með gerræðislegum hætti viðræðum við ESB og hér logaði allt í mótmælum, hefur Samfylkingin ekki náð vopnum sínum. Sem er með hreinum ólíkindum, og á skjön við pólitíska stöðu á öðrum Norðurlöndum þar sem jafnaðarmenn hafa verið burðarás í stjórnmálum.

Samfylkingin keyrði svo á vegg í vikunni, fólk vill ekki og getur ekki, ekki síst þeir sem stutt hafa Samfylkinguna, skilið hvers vegna þingmenn flokksins greiddu ekki atkvæði gegn búvörusamningnum.
VG lætur lítið fyrir sér fara
Meðan Samfylkingin segist vera frjálslyndur jafnaðarflokkur, en efast má um frjálslyndið í raun hefur VG aldrei reynt að sverja af sér stjórnlyndið sem partur af sinni stefnu. Flokkurinn hefur allt þetta kjörtímabil verið að bæta við sig fylgi í skoðanakönnunum. Skýrsla sem kennd er við meirihluta fjárlaganefndar, og beinist einkum gegn Steingrími J. Sigfússyni og verkum hans sem fjármálaráðherra, hefur styrkt flokkinn ef eitthvað er. Ekkert opinbert plagg hefur hlotið eins háðuglega útreið og Guðlaugs Þórs- og Vigdísarskýrslan.
Hins vegar hefur VG ekki farið varhluta af gremju vegna þess að hafa ekki risið upp gegn samþykkt búvörusamningsins. En, sú gremja ristir ef til vill ekki eins djúpt og meðal Pírata og Samfylkingarfólks. Því VG er blendið í trúnni og ríkisstyrktar atvinnugreinar hugnast þeim ágætlega. Og það gæti beinlínis komið sér til góða í landsbyggðarkjördæmum það að hafa ekki látið sverfa til stáls í málinu.

Þannig má segja að þegar allt kemur til alls mun uppnámið í tengslum við búvörusamninginn líkast til styrkja stöðu VG. Flokkurinn hefur ekki látið mikið fyrir sér fara sem virðist ljómandi strategía og þar innan dyra geta menn reitt sig á persónufylgi Katrínar Jakobsdóttur formanns.
Pírataskútan í kröppum sjó
Píratar hafa siglt með himinskautum í skoðanakönnunum á þessu kjörtímabili en heldur virðist byrinn að minnka í segl sjóræningjaskútunnar. Og þetta snýst allt um að toppa á réttum tíma.

En, reyndar voru Píratar farnir að gefa eftir áður en til þessa kom. Þeir eru í fyrirsjáanlegum vandræðum vegna reynsluleysis. Þeir hafa átt í nokkrum vandræðum með að svara gagnrýni vegna prófkjörs og meintra afskipa Birgittu Jónsdóttir af þeim, þeir eru sakaðir um að hafa horfið frá stefnu sinni og séu í raun vinstri flokkur – nokkuð sem gengur í berhögg við yfirlýsta stefnu þess efnis að ekki sé litið til slíkra hefðbundinna skilgreininga svo sem vinstri/hægri. En, það var einmitt vegna slíkra atriða sem Erna Ýr sagði sig úr Píratapartíinu. Píratar eiga sem sagt í stökustu vandræðum með að sannfæra eigin mannskap um eindrægni sína og meðan svo er ná þeir vart að sækja fram.
Björt framtíð nær óvænt vopnum sínum
Spennandi verður að sjá hvað næsta skoðanakönnun sýnir, eftir upphlaupið í tengslum við búvörusamninginn. Því ef marka má samfélagsmiðla eru ýmsir sem voru óákveðnir en vilja nú verðlauna BF með atkvæði sína vegna þessa máls.

Þetta hefur svo sýnt sig í skoðanakönnunum þar sem flokkurinn er á mörkum þess að koma mönnum á þing.
En, Óttarr og þá ekki síður Björt Ólafsdóttir ætlar að nýta sér óvæntan byr, í stormi látanna í tengslum við búvörusamninginn og hefur sagt: „Það kom mér á óvart að ýmsir hjá Samfylkingunni og Pírötum, sem töluðu mjög digurbarkalega, sitja svo hjá. Ég skil ekki afstöðuleysi í jafn stóru máli.“ Þarna er athyglisvert að hún nefnir ekki VG – sem, eins og áður sagði, telja búvörusamninginn hið besta mál.

Hið nýstofnaða stjórnmálaafl Viðreisn nýtur vitaskuld góðs af þessu ölduróti. Flokkurinn er með hreint blað. Búvörusamningsmálið er sem af himnum ofan sent fyrir Benedikt Jóhannesson formann flokksins, því flokkurinn hefur það efst á stefnuskrá að taka til hendinni í kerfinu, hvað varðar ríkisrekstur auk þess sem rekja má stofnun flokksins til þess þegar Sjálfstæðisflokkurinn sveik gefið loforð um að kosið yrði um það hvort aðildarviðræðum við ESB yrði fram haldið eða slitið. Menn úr atvinnulífinu hafa gengið til liðs við flokkinn og horfa menn til möguleika á upptöku nýs gjaldmiðils.
Benedikt tjáði sig á sjónvarpsstöðinni Hringbraut um búvörusamningsmálið og sagði þá, og mega þau orð hans heita lýsandi, að Samfylkingin hafi með hjásetu kosið að verða fjórði framsóknarflokkurinn á Alþingi. Hinir eru þá Framsóknarflokkurinn sjálfur, Sjálfstæðisflokkurinn og VG. Benedikt undraðist að aðeins 19 þingmenn hafi getað afgreitt eins stórt mál og þetta.
Allt verður Viðreisn að vopni. Sígandi lukka hefur verið á flokknum í skoðanakönnunum. Hann hefur verið í kringum 10 prósentin, en með liðsauka á borð við Þorgerði Katrínu, kvennaraunir Sjálfstæðisflokksins og svo búvörusamningslætin þá virðist hann ætla að toppa á hárréttu augnabliki. Nema eitthvað mikið komi til.