Colin Kaepernick, leikstjórnandi San Francisco 49ers, hóf mótmælaölduna með því að neita að standa í þjóðsöngnum á undirbúningstímabili deildarinnar. Sífellt fleiri hafa svo bæst við.
Margir mótmæla þó þessum gjörningi sem þeim finnst vera mikil móðgun við bandaríska fánann. Með því að neita að standa eru leikmennirnir að mótmæla kúgun og meðferð svartra í landinu.
Fjórir leikmenn Miami Dolphins féllu á hné í þjóðsöngnum í gær. Mótherjar þeirra, Seattle Seahawks, læstu saman handleggjum en stóðu.
Leikmenn Kansas City gerðu slíkt hið sama og á enda línunnar lyfti einn leikmaður þeirra upp höndinni með svartan hanska. Mjög líkt því sem hlaupararnir Tommie Smith og John Carlos gerði á verðlaunapallinum á ÓL árið 1968 í Mexíkó.
Leikmenn liðanna sögðust hafa viljað sýna öllum virðingu á þessum viðkvæma degi en að sama skapi reynt að vekja athygli á málefni sem snertir þá alla.
Í nótt mun 49ers spila og þá heldur Kaepernick væntanlega mótmælum sínum áfram.
