Skoðun

Kosningamál númer eitt

Teitur Guðmundsson skrifar
Nú í aðdraganda kosninga keppast flokkarnir við að lofa bót og betrun á heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Þeir hafa fengið býsna gott aðhald í honum Kára og þeim rúmlega 85 þúsund undirskriftum sem hann safnaði. Hann er líka duglegur að skammast í þeim og hvernig þeir ætli að hunskast til að standa í lappirnar hvað þetta málefni snertir. Eftir að hafa fylgst með umræðum undanfarið er erfitt að sjá fyrir sér hvað hver og einn vill gera nákvæmlega. Auðvelt er að lofa því að bæta kerfið, jafn auðvelt virðist vera að svíkja kosningaloforð eða tala sig útúr þeim þegar það hentar. Það er eiginlega alveg stórmerkilegt hvað stjórnmálamenn hafa lélegt minni um það hvað þeir sögðu og virðist alltaf þurfa að minna þá með hljóð eða myndbandsupptökum á það eftirá.

Vissulega er verið að vinna að úrbótum stöðugt og má ætla að menn og konur líka séu að vissu leyti uppvið vegg í mörgum málum. Auðvitað kostar þessi þjónusta mjög mikinn pening. Pening sem þarf jafnvel að taka úr öðrum verkefnum sem getur verið sársaukafullt og erfitt. Því er auðvelt að skilja þá röksemdafærslu að forgangsmál hljóti að vera að stuðla að stöðugleika, greiða niður vexti af lánum ríkisins og stunda aðhald í ríkisrekstri. Þannig muni verða tækifæri til að gera betur en þegar er. Ég er í grunninn sammála þessu og líklega allir aðrir líka. Það er bara svo óstjórnlega sárt að hlusta á þetta vitandi að við höfum á nær öllum tímabilum kreppu, eða hagvaxtar eins og nú ríkir, klikkað á því að bæta í kerfið. Horfum afturfyrir kreppu og hrun og jafnvel lengra þá bar okkur ekki gæfa til þess heldur. Vandinn er ekki nýr af nálinni, þvert á móti. Stjórnmálamenn spila strútinn af einskærri fagmennsku.

Stjórnvöld vita af mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu, erfiðleikum í tengslum við samkeppnishæfni launa og aðstöðu heilbrigðisstarfsfólks, öldrun þjóðarinnar og breyttu mynstri þjónustuþega á þeim vettvangi auk flóðbylgju lífsstílssjúkdóma og örorku sem mun gera kerfið miklu miklu dýrara en það er nú þegar. Það er eiginlega bara fyndið að hlusta á það þegar talað er um að bregðast við þessum atriðum og horfa á efndirnar í raun. Ég hef oft bent á þetta í samanburði við ferðaþjónustuna sem er mjög vaxandi atvinnugrein hér eins og allir þekkja. Fjöldi ferðamanna hefur ítrekað verið langt umfram spár og virðist ekki lát á. Þeir sem ferðast í gegnum Leifsstöð finna álagið, allar stoðstéttirnar sem þar starfa eru að kikna undan álagi og viðbrögðin eru svifasein og flumbrukennd. Mætti segja að það eigi að byggja landganginn að flugstöðinni þegar flugvélin er þegar lent, það gengur auðvitað engan veginn!

Samlíkingin er að því leyti rétt að hvorugt kerfanna er í stakk búið að takast á við þau vandamál og verkefni sem voru og eru fyrirsjáanleg. Það sem meira er þá má segja að vandi heilbrigðisþjónustunnar sé fyrirsjáanlegri að því leyti að hann mun ekki hverfa líkt og getur mögulega gerst með ferðamennina ef þeim líst betur á annað land en Ísland einhverra hluta vegna. Við munum þurfa að hlúa að okkar eigin. Hvernig væri að vera núna á undan vandanum í stað þess að elta á sér skottið og stoppa í götin og ausa bátinn þegar hann er farinn að leka stíft.

Það virðist vera einhver ákvörðunarfælni í þessum málaflokki, nema þegar kemur að kosningum. Þá allt í einu koma fram hin og þessi verkefni sem hafa verið í bígerð um lengri eða skemmri tíma. Kannski mætti vera meiri ákveðni á öðrum tímum kjörtímabilsins og spila svolitla sókn, þegar ég var í fótbolta á sínum tíma þá sagði þjálfarinn minn að sókn væri besta vörnin. Ég hallast að því að hann hafi haft rétt fyrir sér í meginatriðum, amk unnum við flesta okkar leiki þá.

Ég ætla svo að gerast svo djarfur að segja að heilbrigðiskerfið snýst ekki bara um Landspítalann þó það sé alveg augljóslega stærsti útgjaldaliðurinn og án vafa ein mikilvægasta einstaka stofnunin í kerfinu. Eins og margoft hefur komið fram getur spítalinn bara sinnt sinni vinnu eins og best verður á kosið ef umhverfi hans, þá sérstaklega heilsugæslan, auk annarrar utanspítalaþjónustu líkt og öldrunar og hjúkrunarheimila virkar. Ég þekki áherslur heilbrigðisráðherra um heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í kerfinu og að sjálfsögðu þann aðila sem fylgir eftir sjúklingi í kjölfar sjúkrahúsvistar. Ég vil meina að eitt af megin vandamálum í heilbrigðiskerfinu er hversu illa gengur að breyta um takt í heilsugæslunni. Hvar eru forsvarsmenn hennar í fréttum? Hvers vegna er ekki meira talað um þessa þætti? Af hverju tölum við bara um Landspítalann? Það er löngu sannað að grunnþjónustan í allri sinni fjölbreytni, ef hún virkar, er það sem heldur kerfinu gangandi, þar með talið sérfræðilæknaþjónusta á stofu. 

Það vantar pening, helling af pening svo vel verði við unað og helling af hugrekki til að setja hann í kerfið án þess að tafsa og halda áfram að moka flórinn með skeið. Það er allt of lítið gert og ríkisfjármálaáætlun er langt undir væntingum hvað þessi atriði snertir. Ég ætla að þakka Kára fyrir að tala tæpitungulaust en á sama tíma hvetja aðra til hins sama, heilbrigðisstarfsfólk sem sjúklinga og notendur þjónustunnar. Þá vil ég hvetja stjórnmálamenn, hvar í flokki sem er, að standa í lappirnar með loforð sín, það er eina ávísunin á endurkjör.

 




Skoðun

Sjá meira


×