Viðskipti innlent

Icelandair hefur áætlunarflug til Tampa á Flórída á næsta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Flugið milli Keflavíkur og Tampa mun taka um sjö klukkustundir.
Flugið milli Keflavíkur og Tampa mun taka um sjö klukkustundir. Vísir/Vilhelm
Icelandair mun hefja áætlunarflug til Tampa á Flórída á næsta ári. Flogið verður tvisvar á viku milli Keflavíkur og Tampa International Airport frá og með 7. september 2017.

Þetta kemur fram í frétt Tampa Bay Times.

Tampa verður annar áfangastaður Icelandair á Flórída en flugfélagið hefur lengi boðið upp á áætlunarferðir til Orlando. Um 140 kílómetrar eru á milli borganna. Icelandair flýgur til átján áfangastaða í Norður-Ameríku.

Tampa-flugvöllur hefur verið að bæta við sig flugfélögum í beinu flugi til og frá Evrópu á síðustu árum.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segist í samtali við Tampa Bay Times að hann telji íbúa Tampa munu fagna þessari nýju flugleið. Ísland hafi upp á ýmislegt að bjóða.

Flugið mun taka um sjö klukkustundir og segir að kostnaðurinn fyrir ferð fram og til baka, verði um 1.200 Bandaríkjadali, um 137 þúsund krónur.


Tengdar fréttir

Bréfin hríðféllu eftir sölu Olgu

Gengi hlutabréfa í Icelandair Group lækkaði um 4,89 prósent í kjölfar þess að Katrín Olga Jóhannesdóttir, athafnakona og stjórnarmaður Icelandair Group, seldi 400 þúsund hluti í félaginu.

Óttast að við verðum of háð túrismanum

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir ferðaþjónustuna hafa mikil áhrif á rekstur Ölgerðarinnar. Um leið óttast hann að við gætum orðið of háð henni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×