Stuðningsmanni Baltimore Ravens er vart hugað líf eftir að hafa lent í slagsmálum á leik Ravens og Oakland Raiders á sunnudag.
Hinn 55 ára gamli Joseph Bauer varð fyrir alvarlegum höfuðmeiðslum á leiknum og liggur nú inn á gjörgæsludeild.
Bauer lenti í rifrildi við tvo menn á leiknum. Annar þeirra kýldi Bauer sem féll til jarðar og fékk mikið högg á höfuðið. Hann er nú í dái.
Læknar hafa tjáð fjölskyldu Bauer að það séu aðeins um 30 prósent líkur á því að hann muni lifa af.
Mennirnir tveir sem réðust á Bauer eru báðir í vörslu lögreglu og hafa verið ákærðir fyrir árás. Sú kæra gæti breyst í manndráp ef Bauer lifir ekki af.
