Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir í samtali við Vísi að hann telji að samningaviðræðurnar nú megi í mesta lagi taka þrjár vikur en kennarar hafa tvívegis á árinu fellt kjarasamning. Mikil ólga er í stéttinni og komu um þúsund kennarar saman til samstöðufundar í Háskólabíó síðdegis í gær þar sem þeir kröfðust bættra kjara.
„Þetta er fundur númer tvö þannig að nú förum við að ræða málefnin og taka á þessu en það er auðvitað ljóst að þetta getur tekið smá tíma. Það er þó einnig ljóst að tíminn sem við höfum til umráða er ekki mikill og það sem við gáfum út á mánudaginn eftir fund okkar þá var að þrátt fyrir að það megi búast við að þetta taki nokkrar vikur þá gerum við okkur öll grein fyrir því að tíminn er naumur,“ segir Ólafur.

Margir kennarar hafa stigið fram í fjölmiðlum undanfarið og sagt að náist ekki samningar sem þeir geta sætt sig við muni þeir segja upp störfum. Ólafur segir að Félag grunnskólakennara finni vissulega fyrir þessari undiröldu og segir að það yrði „katastrófa“ ef kennarar færu að segja upp í hrönnum.
Það væru til að mynda aðgerðir sem kennarar gætu gripið til ef ekki næst að semja innan þriggja vikna, það er tímarammans sem Ólafur nefnir í tengslum við samningaviðræðurnar nú, og segir Ólafur að fjöldauppsagnir kennara séu mun alvarlegri aðgerðir en kennaraverkfall.
„Hins vegar eru uppsagnir kennara ekkert sem kemur inn á borð okkar hjá félaginu, og við stjórnum eða ráðum við, heldur er það bara á milli kennara og skólastjóra. En það er auðvitað ekki búið að taka verkfallsréttinn af okkur og það er auðvitað eitt af því sem við myndum skoða ef við kæmumst í þá stöðu,“ segir Ólafur.