Fótbolti

Bolt fær að æfa með Dortmund

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Spretthlauparinn Usian Bolt fær tækifæri til að æfa með þýska fótboltaliðinu Borussia Dortmund. Þetta staðfesti Hans-Joachim Watzke, stjórnarformaður Dortmund, í samtali við Kicker.

Bolt er mikill fótboltaáhugamaður og hefur íhugað að reyna fyrir sér í þeirri íþrótt þegar hlaupaskórnir fara á hilluna eftir HM á næsta ári.

Bolt er með samning við þýska íþróttavörufyrirtækið Puma. Stjórnarformaður Puma, Björn Gulden, situr í stjórn Dortmund og hann kom því í kring að Jamaíkumaðurinn fengi að æfa með aðalliði Dortmund.

Þótt Bolt fái að æfa með liðinu fær hann ekki samning hjá Dortmund. Watzke tók það alveg skýrt fram.

„Við þurfum ekki ræða um að hann fái samning. En það er heiður að hann vilji æfa með okkar,“ sagði Watzke.

Bolt er einn fremsti íþróttamaður sögunnar en hann á heimsmetið í bæði 100 og 200 metra hlaupi. Hann hefur unnið til níu gullverðlauna á Ólympíuleikum og 11 gullverðlauna á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×