Guðmundur Karl, sem er 25 ára gamall, hefur spilað með Fjölni allan sinn meistaraflokksferil en hann er úr Þorlákshöfn. Hann fékk fyrst tækifæri með Fjölni í efstu deild árið 2008 þá 17 ára gamall. Hann á að baki 170 leiki og 30 mörk í deild og bikar fyrir Grafarvogsliðið.
Þetta er annað árið í röð sem FH-ingar næla sér í fyrirliða Fjölnis en á sama tíma í fyrra gekk miðvörðurinn Bergsveinn Ólafsson í raðir Íslandsmeistaranna.

Markvörðurinn Vignir Jóhannesson er uppalinn hjá Breiðabliki en hefur spilað með Selfossi í Inkasso-deildinni undanfarin þrjú tímabil. Hann var áður á mála hjá Aftureldingu og Njarðvík í 2. deildinni.
Vignir er 26 ára gamall og mun veita færeyska landsliðsmarkverðinum Gunnari Nielsen samkeppni í FH-liðinu eftir að Kristján Finnbogason lagði hanskana á hilluna 45 ára gamall eftir síðasta tímabil.
Guðmundur Karl og Vignir eru leikmenn númer tvö og þrjú sem Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára fá til sín eftir að tímabilinu lauk. Áður var kominn framherjinn Veigar Páll Gunnarsson frá Stjörnunni.