Veginum um Holtavörðuheiði og Bröttubrekku hefur verið lokað vegna veðurs en vísað er á Laxárdalsheiði og Heydal sem hjáleið. Leiðindaveður er víða um land en þá einna helst um landið vestan- og norðvestanvert, en vindur hefur slegið í allt að 28 metra á sekúndu í hryðjunum.
Skafrenningur eykst smám saman og á það meðal annars við um Hellisheiði og Holtavörðuheiði, þar sem suðvestanáttin er oft hvimleið. Búist er við að það lægi heldur suðvestanlands síðdegis, en ekki fyrr en seint í kvöld á Vesturlandi, Vestfjörðum og norðanlands.
Hálka eða hálkublettir er víðast hvar á landinu. Á Hellisheiði er hálka, hvasst og skafrenningur og hálka eða hálkublettur eru á flestum vegum á Suðurlandi og sums staðar skefur. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og Suðurnesjum, og hvasst.
Á Vesturlandi er snjókoma eða éljagangur og hvasst en þó eru víða aðeins hálkublettir á láglendi.
Hálka eða snjóþekja er á vegum á Vestfjörðum, þó þæfingur á Klettshálsi. Víða er hvasst, meðalvindur jafnvel yfir 30 m á sekúndu á sunnanverðum fjörðunum. Stórhríð er á Kleifaheiði, Mikladal og Hálfdáni, og eins á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Það er fært norður í Árneshrepp.
Á Norðurlandi er víða ofankoma og allvíða nokkur hálka eða snjóþekja. Mjög hvasst er á Miðnorðurlandi. Þverárfjall er ófært og þar er stórhríð.
Hálka er á köflum á Austurlandi, einkum á Héraði. Með suðausturströndinni er mikið autt þótt sums staðar séu hálkublettir og raunar snjóþekja á kafla fyrir vestan Klaustur.
Nánar á vef Vegagerðarinnar.
Frétt uppfærð kl. 11.13.
Veginum um Holtavörðuheiði lokað

Tengdar fréttir

Stormur í dag og á morgun en útlitið gott fyrir gamlárskvöld
Búist er við suðvestanstormi eða –roki í dag.

Hálka víðast hvar
Leiðindaveður um landið vestan- og norðvestanvert meira og minna í allan dag.

Innanlandsflugi frestað
Flugi frestað annan daginn í röð vegna veðurs