Þórir er þriðji íslenski þjálfarinn sem vinnur til verðlauna á árinu í handboltanum. Guðmundur Guðmundsson varð Ólympíumeistari með Dönum og Dagur Sigurðsson gerði Þjóðverja að Evrópumeisturum.
„Þessir strákar sem eru í þessu héðan eru mikil "inspiration" fyrir mig til dæmis og ég hugsa að þetta sé uppeldið hér heima. Íslendingar eru vinnusamir," sagði Þórir í samtali við Tómas.
„Við erum lítil þjóð og við þurfum að standa saman. Ísland er lítið lið sem eru að keppa við alla þessa stóru í kringum sig og það er mikilvægt. Liðið er alltaf mikilvægast."
„Það er engin einstaklingur sem er stærri en liðið. Þar finnst mér fótboltinn hafa farið fram úr sér. Leikmenn verða miklu stærri en liðið og það bendir ekki alltaf á gott," sagði Þórir.
Allt innslagið úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að ofan.