Regína Hreinsdóttir, þjóðgarðsvörður í Skaftafelli, segir fyrirtækjum í íshellaferðum og öðrum ferðum á Skaftafellsjökul hafa fjölgað upp á síðkastið. „Við höfum séð vanbúna ferðamenn en það heyrir til undantekninga. Hins vegar er það svo að við verðum að geta tryggt öryggi ferðamanna,“ segir Regína. „Það er því á herðum ferðaþjónustufyrirtækjanna sjálfra að tryggja öryggi þeirra.“
Á þessu ári hafa komið upp dæmi um ferðaþjónustufyrirtæki með stóra hópa ferðamanna uppi á skriðjöklum án mannbrodda og inni í íshellum. Gæta þarf fyllstu varúðar á slóðum sem þessum. Nýsamþykkt lög um Vatnajökulsþjóðgarð munu hjálpa til við að kortleggja ferðaþjónustuna í Skaftafelli að mati Regínu. „Nú þurfa ferðaþjónustufyrirtækin að sækja um leyfi til að starfa innan þjóðgarðsins og því getum við fengið mun skýrari yfirsýn yfir þá starfsemi sem þar fer fram. Einnig getum við komið upplýsingum betur til fyrirtækja, bæði um vegi á svæðinu og hættur við jökul,“ segir Regína.

„Ekki er síður mikilvægt að gerðar séu kröfur um öryggisáætlanir ferðaþjónustuaðila með áhættumati ferða. Hvað varðar heimildir til að sinna starfsemi innan þjóðgarða sjáum við fyrir okkur að fyrirtæki geti verið krafin um aðild að Vakanum, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar,“ bætir Helga við.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu