Ólafur E. Jóhannsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Ólafur hefur þegar hafið störf í ráðuneytinu.
Fyrr í vikunni var greint frá því að Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir lögfræðingur muni einnig aðstoða Jón en hún hefur starfað sem lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Í frétt á vef innanríkisráðuneytisins segir að Ólafur hafi undanfarin ár verið forstöðumaður sölu- og samskiptasviðs hjá íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Carbon Recycling International. Áður hafi hann starfað sem verkefnisstjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur á sviði umsýslu- og almannatengsla og sinnt þar meðal annars samskiptum við sveitarfélög.
„Bakgrunnur Ólafs er jafnframt úr fjölmiðlum og almannatengslum og hefur hann rekið eigin starfsemi á því sviði fyrir ýmis fyrirtæki og samtök. Einnig starfaði hann sem fréttamaður hjá RÚV Sjónvarpi, Stöð 2 og Morgunblaðinu. Hann stundaði nám við lagadeild HÍ og á að baki margvísleg störf að félagsmálum.
Ólafur er kvæntur Írisi Erlingsdóttur, söngkennara í Söngskólanum í Reykjavík, og eiga þau þrjú uppkomin börn,“ segir í fréttinni.
