Stjórnvöld Taívan sendur herþotur og skip til móts við kínverskan flota sem sigldi í átt að eyjunni og í gegnum Taívan-sund. Í flotanum var Liaoning, eina flugmóðurskip Kínverja. Varnarmálaráðuneyti Taívan segir flotann ekki hafa siglt inn í landhelgi ríkisins en hann hafi farið nærri því.
Þær þotur og skip sem voru send fengu það verkefni að fylgjast með ferð kínverska flotans, sem var á leið frá heræfingum í Suður-Kínahafi.
Samkvæmt Reuters fréttaveitunni hafa stjórnvöld Taívan kallað eftir því að Kínverjar myndu endurvekja samskipti ríkjanna eftir að hafa slitið þeim í sumar.
Kínverjar hafa gert tilkall til Taívans allt frá árinu 1949 þegar leiðtogar lýðveldissinna í Kína flúðu þangað undan kommúnistum og stofnuðu þar ríki, sem þeir kölluðu, og kalla raunar enn, Lýðveldið Kína. Afar grunnt hefur verið á því góða á milli ríkjanna allar götur síðan en samskiptin höfðu þó batnað allra síðustu ár.
Kínverjar segja áhöfn flugmóðurskipsins og fylgiskipa þess hafa fylgt alþjóðalögum.
Flugmóðurskipið var á leið frá æfingum í Suður-Kínahafi þar sem Kínverjar hafa gert tilkall til nánast alls hafsins. Tilkallið hefur verið dæmt ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum, en Kínvjerar hafa byggt upp eyjur í hafinu og vígbúið þær með flotastöðvum, herflugvöllum, loftvörnum og langdrægum flugskeytum.
Flugmóðurskip Kína sigldi að Taívan

Tengdar fréttir

Kínverjar „verulega áhyggjufullir“ vegna ummæla Trump
Segja Eitt Kína-stefnuna vera hornstein samskipta ríkjanna.

Trump ræddi við forseta Taívan og Kínverjar munu tjúllast
Samband Bandaríkjanna og Kína hefur beðið verulega hnekki á undanförnum mánuðum vegna deilna í Suður-Kínahafi.

Trump segir Kínverja stela og þeir segja allt of mikið gert úr málinu
Kínverjar lögðu hald á sjálfvirkan kafbát Bandaríkjanna sem var staddur á alþjóðlegu hafsvæði.