Erlent

Áhöfn Polar Nanoq sakar Enoksen um að nýta sér mál Birnu í stjórnmálalegum tilgangi

atli ísleifsson skrifar
Hans Enoksen er sjávarútvegsráðherra grænlensku heimastjórnarinnar.
Hans Enoksen er sjávarútvegsráðherra grænlensku heimastjórnarinnar. Vísir/Vilhelm/AFP
Áhöfn Polar Nanoq hefur sakað Hans Enoksen, sjávarútvegsráðherra Grænlands, um að nýta morðið á Birnu Brjánsdóttur í stjórnmálalegum tilgangi.

Ráðherrann hefur sagt að hann vilji að grænlenska þingið kanni hvort eigi að heimila að hægt verði að takmarka veiðiheimildir grænlenskra skipa sem hafa verið notuð til eiturlyfjasmygls.

„Í stað þess að bjóða til frekara samstarfs um þetta mikilvæga mál, kýs Hans Enoksen að nýta þetta hörmulega mál til að koma sínum stjórnmálaskoðunum á framfæri,“ segir í yfirlýsingu frá áhöfninni sem KNR greinir frá.

Lögregla fann á dögunum um 20 kíló af hassi um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq eftir leit um borð í skipinu í tengslum við hvarf Birnu Brjánsdóttur. Áætlað er að verðmæti efnanna sé milli 10 til 12 milljónir danskra króna, milli 163 til 196 milljónir íslenskra króna.

Áhöfnin segir að síðustu dagar á Íslandi hafi verið erfiðir og málið hafi reynt mjög á alla. Tímasetning Enoksen hafi því verið afleit.

„Okkur finnst að hann hefði getað beðið með hassmálið og í stað þess vottað íslensku fjölskyldunni samúð, þar sem hún beið í óvissu eftir því hvort að dóttir þeirra myndi finnast á lífi,“ segir í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir

Vísbendingar komnar um dánarorsök

Bráðabirgðakrufning réttarmeinafræðings lögreglunnar, sem lauk í gærkvöld, færði lögreglu nær því að vita hver dánarorsök Birnu Brjánsdóttur er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×