Innlent

Líkið krufið síðar í dag

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Selvogsviti á sunnanverðu Reykjanesi, þar sem líkið fannst.
Selvogsviti á sunnanverðu Reykjanesi, þar sem líkið fannst. Vísir/Getty
Líkið sem fannst við Selvogsvita í hádeginu í gær verður krufið seinni partinn í dag. Að krufningu lokinni ætti að vera hægt að segja til með vissu hvort um lík Birnu Brjánsdóttur, sem saknað hefur verið í rúma viku, sé að ræða.

Vísir greindi frá því í gær að austurrískur réttarmeinalæknir væri á leið til landsins en hann mun annast rannsóknina á líkinu. Hann er væntanlegur um hádegi en hann starfar bæði hér og erlendis við réttarmeinarannsóknir.

Vonast er til að hann gæti fundið svörin við fjölda útistandandi spurninga; eins og hvort um Birnu sé að ræða, hver dánarorsök hennar var, hvenær hún lést og hvort dauða hennar hafi borið að með saknæmum hætti. Lögreglan gengur þó út frá því að Birnu hafi verið ráðinn bani í rauðu Kia Rio bifreiðinni, ekki síst í ljósi blóðs úr Birnu sem fannst í bílnum.

Sjá einnig: Mörgum spurningum ósvarað: Austurrískur sérfræðingur á leið til landsins

Ekki verður þó fyllilega úr því skorið fyrr en eftir krufningu á líkinu og ítarlegri rannsókn á áverkunum.

Grímur Grímsson segir að mennirnir tveir sem grunaðir eru um aðild á málinu verði annað hvort yfirheyrðir í kvöld eða á morgun. Hvort það verði gert á lögreglustöðinni á Hverfisgötu, þar sem þeir voru yfirheyrðir fyrir helgi, eða á Litla-Hrauni, þar sem þeir eru nú í einangrun, hefur ekki verið ákveðið. „Það getur hvort tveggja verið, það er yfirheyrslubúnaður á Litla Hrauni og svo auðvitað hér [í borginni],“ segir Grímur Grímsson í samtali við fréttastofu.

Mennirnir voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í liðinni viku. Búið er að kæra þann úrskurð en ekki liggur fyrir hvort að Hæstiréttur fallist á að framlengja gæsluvarðhaldið um tvær vikur til viðbótar eins og farið hefur verið fram á.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×