Kim Jong-nam var bróðir einræðisherra Norður-Kóreu, Kim Jong-un. Atlaga var gerð að honum í komusal alþjóðaflugvallarins í Kuala Lumpur af tveimur konum sem komu aftan að honum og skvettu framan í hann eitri.
Í kjölfarið leitaði Kim sér læknisaðstoðar á flugvellinum og lést síðar í sjúkrabifreið á leiðinni á spítala.
Aisyah er 25 ára gömul en henni var að eigin sögn talin trú um að hún væri aðeins að taka þátt í sjónvarpshrekk og segist ekki hafa haft hugmynd um að efnið sem um ræddi væri eitur. Henni var öllu heldur tjáð að um barnaolíu væri að ræða.

Norður-kóresk yfirvöld eru grunuð um verknaðinn þrátt fyrir að þau neiti staðfastlega aðild.
Auk Aisyah eru tveir í haldi grunaðir um aðild að ódæðinu, annars vegar víetnömsk kona og hins vegar karlmaður frá Norður-Kóreu.
Víetnamska konan, Doan Thi Huong, er 29 ára gömul og ber einnig fyrir sig að hún hafi framið verknaðinn í þeirri trú að hún væri þátttakandi í sjónvarpshrekk.