Innlent

Göngustígar endurlagðir við Gullfoss

Svavar Hávarðsson skrifar
Varanleg lausn þessa vanda er aðkallandi.
Varanleg lausn þessa vanda er aðkallandi. vísir/anton brink
Umhverfisstofnun hefur lagt möl á göngustíga við Gullfoss og varið umhverfið við fossinn til bráðabirgða.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að þannig hafi verið brugðist við ófremdarástandi sem skapaðist á gönguleið við Gullfoss þegar mikil vætutíð og umferð ferðamanna leiddi til þess að hluti göngustíga við fossinn breyttist í drullusvað í síðustu viku.

Búið er að aka sex vörubílshlössum af harpaðri möl í stígana og verja umhverfið eins vel í bili og kostur er, að sögn Lárusar Kjartanssonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, en hann hafði eftirlit með framkvæmdunum.

Fréttablaðið fjallaði um málið á fimmtudag og birti myndaröð sem sýndi hvernig komið var við fossinn og á Geysissvæðinu. Samtöl Fréttablaðsins við ferðamenn leiddu í ljós að forarsvaðið fór ekkert sérstaklega í taugarnar á þeim, en eins og þráfaldlega hefur verið sagt frá er álag vegna ferðamanna sérstakt áhyggjuefni í ljósi fjölgunar þeirra. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×