Sport

Ólympíumeistarinn okkar bætir líka Íslandsmetin í frjálsum íþróttum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Margeir Sverrisson á palli um helgina.
Jón Margeir Sverrisson á palli um helgina. Mynd/Fésbókarsíða Jóns Margeirs
Jón Margeir Sverrisson er þekktur fyrir frábæra frammistöðu í sundlauginni en um helgina sýndi strákurinn að hann er einnig frábær frjálsíþróttamaður.

Jón Margeir setti fjögur Íslandsmet og vann fern gullverðlaun á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum í Laugardalshöllinni um helgina.

Jón Margeir setti Íslandsmet í 400 metra hlaupi á laugardaginn þegar hann hljóp á 56,03 sekúndum. Jón Margeir fylgdi því síðan eftir með því að setja Íslandsmet í 200 metra hlaupi, 800 metra hlaupi og 1500 metra hlaupi daginn eftir.  

Jón Margeir hljóp 200 metarana á 25,62 sekúndum,  800 metrana á 2:24,79 mínútum og 1500 metrana á 5:11,40 mínútum.

Jón Margeir hefur verið að æfa bæði sund og frjálsar undanfarnar vikur en hann hefur tekið þrjár æfingar í hverri viku í hvorri grein.

Jón Margeir Sverrisson er 24 ára gamall en hann varð Ólympíumeistari í 200 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í London 2012. Hann hefur einnig orðið Evrópumeistari í greininni og hefur unnið silfur á síðustu tveimur heimsmeistaramótum.

Baráttan um Íslandsbikarinn innanhúss á Meistaramóti Íslands hjá fötluðum var á milli Fjölnis og Eikarinnar sem hafði sigur fékk 10 gull en Fjölnir 9 gull. Jón Margeir keppir fyrir Fjölni.  

ÍFR fékk 4 gull, FH 4 gull, Suðri 1 gull og Ármann 1 gull. Ánægjulegt er að sjá frjálsíþróttadeildir ófatlaðra senda svo öfluga keppendur til leiks.

Ellefu Íslandsmet voru sett eða bætt og 19 persónuleg met voru sett á mótinu. Ungt og upprennandi íþróttafólk var áberandi og gleðilegt að sjá keppendur í nýjum fötlunarflokkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×