Erlent

Velski kennarinn sem vísað var frá borði í Keflavík neitaði að mæta í spjallþátt Piers Morgan

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Juel Miah er ekki sáttur við Piers Morgan.
Juel Miah er ekki sáttur við Piers Morgan. Vísir/Getty/Stefán
Juhel Miah, velski kennarinn sem vísað var frá borði flugvélar í Keflavík í febrúar neitaði að mæta í Good Morning Britan, spjallþátt Piers Morgan. Er hann ósáttur við orð Morgan eftir að sér var vísað frá borði auk þess sem að hann hefur efasemdir um Morgan vegna tengsla hans við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

„Ég hafnaði boði Good Morning Britain vegna Piers Morgan, viðhorfa hans og tengsla við Donald Trump. Ég sagði framleiðendum þáttarins að ég vildi ekki vera í þáttunum með Piers Morgan,“ sagði Miah í samtali við Wales Online.

Miah virðist vera ósáttur við tíst frá Piers Morgan þar sem hann viðraði efasemdir um frásögn kennarans. Miah var sem kunnugt er vísað frá borði flugvélar Icelandair hér á landi á leið til Bandaríkjanna þann 16. febrúar. Miah hefur enn ekki fengið neinar skýringar fyrir utan þær sem hann fékk á Keflavíkurflugvelli, að bandarísk yfirvöld vildu ekki leyfa honum að koma til Bandaríkjanna.

Morgan studdi Trump í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Hafa þeir verið vinir um árabil. Hefur Morgan sagt að honum líki vel við Trump sem reynst hafi sér traustur og góður vinur í gegnum tíðina, þrátt fyrir að vera ósammála Trump um helstu stefnumál.

Miah vonast enn til þess að fá skýringar á því af hverju hann fékk ekki að ferðast til Bandaríkjanna. Þá hefur hann fengið þingmann kjördæmis síns í lið með sér til þess að ganga úr skugga um að vegabréf hans sé ekki kominn á einhversskonar lista sem geti komið í veg fyrir frekari ferðalög.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×