Erlent

Býður andstæðinga Brexit velkomna til Skotlands

Bjarki Ármannsson skrifar
Nicola Sturgeon, forseti skosku heimastjórnarinnar.
Nicola Sturgeon, forseti skosku heimastjórnarinnar. Vísir/Getty
Nicola Sturgeon, forseti skosku heimastjórnarinnar, hvatti þá íbúa Bretlands sem ósáttir eru við fyrirhugaða útgöngu landsins úr Evrópusambandinu til að flytja til Skotlands í ræðu sinni á ráðstefnu Skoska þjóðarflokksins í dag.

Sem kunnugt er, hyggst Sturgeon sækjast eftir heimild til þess að halda nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands frá Bretlandi en boðuð úrsögn Breta úr ESB, hið svokallaða Brexit, nýtur ekki stuðnings meirihluta Skota.

„Skotland er ekki fullt,“ sagði Sturgeon meðal annars í ræðu sinni. „Ef þig hryllir jafn mikið og okkur við þeirri vegferð sem bresk stjórnvöld eru á, komdu og vertu með okkur. Komdu til Skotlands og taktu þátt í uppbyggingu nútímaríkis.“

Skotar greiddu atkvæði um sjálfstæði árið 2014 en 55,3 prósent kjósenda höfnuðu því. Sturgeon lýsti því yfir í vikunni að vegna breyttra aðstæðna í kjölfar Brexit-kosninganna teldi hún að Skotar myndu nú velja sjálfstæði frá Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×