LeBron James skoraði 17 stig í 4. leikhluta þegar Cleveland Cavaliers vann átta stiga sigur, 91-83, á Utah Jazz, besta varnarliði deildarinnar, á heimavelli.
James skoraði alls 33 stig og tók auk þess 10 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Kyrie Irving skoraði 21 stig í fyrstu þremur leikhlutunum en hann lék ekkert í 4. leikhluta vegna meiðsla.
Rudy Gobert stóð upp úr í liði Utah en Frakkinn skoraði 20 stig og tók 19 fráköst.
Golden State Warriors átti ekki í miklum vandræðum með að leggja Orlando Magic að velli, 122-92.
Klay Thompson var stigahæstur í liði Golden State með 29 stig, en 21 þeirra kom í 1. leikhluta. Stephen Curry bætti 25 stigum og níu stoðsendingum við.
Russell Westbrook var með þrennu þegar Oklahoma City Thunder bar sigurorð af Toronto Raptors, 102-123, á útivelli.
Westbrook skoraði 24 stig, tók 10 fráköst og gaf 16 stoðsendingar. Þetta var 34. þrennan hans á tímabilinu.
Victor Oladipo var næststigahæstur í liði Oklahoma með 23 stig. Liðið hefur unnið fjóra leiki í röð.
DeMar DeRozan skoraði 22 stig fyrir Toronto sem er í 4. sæti Austurdeildarinnar.
Úrslitin í nótt:
Cleveland 91-83 Utah
Golden State 122-92 Orlando
Toronto 102-123 Oklahoma
Atlanta 91-103 Memphis
Denver 129-114 LA Clippers