Ríkisstjórn Assad svaraði mótmælunum sem hófust í mars 2011 með hörku þar sem hundruð mótmælenda voru myrtir og fjöldi annarra voru handteknir. Í júlí sama ár hófst svo vopnuð uppreisn nokkurra hermanna úr sýrlenska hernum.
Sá hópur sem farið hefur hvað verst út úr stríðinu eru sýrlensk börn en staða barna hefur aldrei verið verri en nú, sex árum eftir að stríðið hófst.
Í frétt á vef UNICEF á Íslandi segir að sex milljónir barna þurfi nú á mannúðaraðstoð að halda vegna styrjaldarinnar en það er tólf sinnum meira en árið 2012. Milljónir barna hafa þurft að flýja heimili sín, oft á tíðum ein síns liðs, en dæmi eru um börn sem hafa hrakist á milli allt að sjö mismunandi staða.
UNICEF gaf í dag út lag sem heitir á ensku Heartbeat eða „Hjartsláttur.“ Lagið er eftir Zade Dirane og er flutt af 10 ára gamalli blindri stúlku sem er á flótta í Sýrlandi. Myndbandið við lagið var tekið upp á stöðum víðs vegar um Sýrland sem eru rústir einar vegna stríðsins. Þá eru öll börnin sem koma fram í myndbandinu á flótta og taka þátt í verkefnum á vegum UNICEF þar sem þau fá sálrænan stuðning.
Myndbandið má sjá hér að neðan.