Erlent

Telja loftmengun hafa falið áhrif hlýnunar á norðurskautinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Hafísinn á norðurskautinu óx upp úr miðri öldinni þrátt fyrir að gróðurhúsalofttegundir yllu hlýnun á jörðinni.
Hafísinn á norðurskautinu óx upp úr miðri öldinni þrátt fyrir að gróðurhúsalofttegundir yllu hlýnun á jörðinni. Vísir/EPA
Brennisteinsagnir frá bruna jarðefnaeldsneytis eru taldar orsök þess að hafís á norðurskautinu óx upp úr miðri öldinni á sama tíma og gróðurhúsalofttegundir vermdu jörðina. Ný rannsókn bendir til þess að þannig hafi loftmengun falið áhrif hlýnunar á norðurhjara veraldar.

Þó að beinar mælingar á hafísnum á norðurskautinu með gervihnöttum hafi ekki hafist fyrr en árið 1979 eru einhver eldri gögn til um ísinn. Þessi eldri gögn, ásamt nýlegum tölvulíkönum, benda til þess að hafísinn hafi vaxið frá því um 1950 til 1975, samkvæmt frétt sem birtist á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

Ný greining á gögnunum hefur leitt vísindamenn að þeirri ályktun að loftmengun hafi valdið því að hafísinn óx á þessu tímabili.

Loftmengunin meiri áður en lög voru sett

Ýmsar agnir í andrúmsloftinu endurvarpa sólargeislum út í geim og valda þannig kólnun við yfirborð jarðar. Vísindamennirnir telja að brennisteinsagnir sem losnuðu frá bruna á jarðefnaeldsneyti hafi falið hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda.

„Kólnunaráhrif frá auknu magni rykagna faldi hlýnunaráhrif aukins styrks gróðurhúsalofttegunda og meira til,“ segir John Fyfe, vísindamaður við Umhverfis- og loftslagsbreytingar Kanada sem er einn höfunda greinar um rannsóknina sem birtist í Geophysical Research Letters.

Styrkur þessara brennisteinsagna í lofthjúpnum var sérstaklega mikill á tímabilinu 1950 til 1975 áður en umhverfisverndarlög voru sett á 8. áratugnum sem takmörkuðu losun brennisteinsvetnis út í andrúmsloftið.

Tölvulíkan sem vísindamennirnir notuðu við rannsóknina sýndi að brennisteinsagnirnar hefðu valdið kólnun á norðurskautinu og hafísinn vaxið.

Agnirnar eru skammlífar í andrúmsloftinu. Kólnunaráhrif þeirra fjöruðu því út eftir 1980 þegar reglugerðir og lög gegn loftmengun voru farin að bíta á losun efnanna. Hafísinn á norðurskautinu hefur síðan skroppið gríðarlega saman.

Washington Post sagði frá því nýlega að hámarksútbreiðsla hafíssinn að vetri hafi verið sú minnsta frá því að mælingar hófust í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×