Búast má við áframhaldandi slyddu og snjókomu í dag, fyrst sunnan- og vestanlands með morgninum en norðan- og austantil eftir hádegi.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að skil nálgist landið úr suðvestri með vaxandi austanátt og snjókomu eða slyddu. Þá eru hálkublettir og éljagangur á Reykjanesbraut og víða á Reykjanesi og Höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Slydda verður allra nyrst á landinu á morgun, en annars smáskúrir og milt í veðri. Ákveðin norðaustanátt norðantil á landinu annað kvöld og slydda eða snjókoma, en hægari vindur og rigning í öðrum landshlutum. Síðan dregur úr vindi og úrkomu á föstudag.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Austan og norðaustan 8-15 m/s á Vestfjörðum og annesjum N-lands og slydda, en annars hægari sulæg átt og rigning með köflum. Hiti 0 til 8 stig, hlýjast syðst.
Á föstudag:
Suðaustan 8-15 m/s, víða rigning og hiti 3 til 8 stig, en norðaustan 10-15 og slydda eða snjókoma nyrst á landinu og hiti nálægt frostmarki.
Á laugardag:
Norðaustan 8-15 m/s og slydda eða snjókoma NV-til. Annars hæg suðlæg átt og dálítil rigning, en yfirleitt þurrt á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti 1 til 7 stig.
Á sunnudag:
Norðanátt og snjókoma eða él N-til á landinu, en þurrt og bjart sunnan- og suðvestantil á landinu. Kólnandi veður.
Á mánudag:
Austlæg átt, skýjað með köflum eða bjartviðri og frost 1 til 6 stig, en snjókoma suðvestantil um kvöldið og heldur hlýnandi.
Á þriðjudag:
Útlit fyrir austlæga átt með dálitlum éljum, en slyddu sunnantil. Vægt frost, en yfirleitt frostlaust við suður- og suðvesturströndina.
Áframhaldandi slydda og snjókoma
Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
