Hrafn Kristjánsson verður áfram við stjórnvölinn hjá karlaliði Stjörnunnar í körfubolta. Karfan.is greinir frá.
Hrafn hefur stýrt Stjörnunni undanfarin þrjú tímabil.
Hrafn gerði Stjörnuna að bikarmeisturum á sínu fyrsta tímabili við stjórnvölinn. Stjarnan endaði þá í 5. sæti Domino's deildarinnar en tapaði fyrir Njarðvík í 8-liða úrslitum.
Á næsta tímabili endaði Stjarnan í 2. sæti Domino's deildarinnar en liðið hafði aldrei endað jafn ofarlega í efstu deild. Garðbæingar féllu hins vegar aftur úr leik fyrir Njarðvíkingum í 8-liða úrslitum.
Í ár endaði Stjarnan aftur í 2. sæti Domino's deildarinnar og vann ÍR 3-0 í 8-liða úrslitunum. Lengra komust Stjörnumenn ekki því í næstu umferð sópuðu Grindvíkingar þeim í sumarfrí.
