Milt loft er yfir landinu og fylgir því skýjað veður og súldarvottur. Á Suðausturlandi verður þó bjartviðri í landáttinni og þar verður hlýjast í dag eða allt að fjórtán stiga hiti. Þá á að verða hlýtt fram á mánudag, eða eins langt og spáin nær.
Morgundagurinn heilsar með sunnan strekkingi og rigningu, en með björtu og hlýju veðri á Norður- og Austurlandi. Rigningin kemur úr kuldaskilum og handan þeirra kólnar skarpt og lægir sem þýðir að upp úr hádegi eru líkur á slyddu eða snjókomu um tíma vestantil á landinu, að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Annars var hiti um allt land í nótt, allt upp í níu stig á Egilsstöðum og sex í Reykjavík. Væta var suðvestan og norðvestanlands en annars þurrt.
Á fimmtudag:
Sunnan 8-15 m/s og rigning, en hægari og bjart á Norður- og Austurlandi. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast norðaustanlands. Lægir vestantil á landinu eftir hádegi, kólnar þar og líkur á slyddu eða snjókomu um tíma.
Á föstudag:
Suðaustan 13-18 m/s. Þurrt að kalla norðanlands, annars rigning eða slydda, en snjókoma til fjalla. Hægari vindur á Suður- og Vesturlandi um kvöldið. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast fyrir norðan.
Á laugardag:
Suðaustan 5-13 m/s og skúrir eða slydduél, en rigning austanlands og þurrt um landið norðvestanvert. Hiti breytist lítið.
