Cleveland Cavaliers kláraði einvígi sitt gegn Indiana Pacers nú rétt í þessu með 106-102 sigri í Indiana en þetta er fimmta árið í röð sem lið LeBron James sópar liðinu sem þeir mæta í átta-liða úrslitum Austurdeildarinnar í sumarfrí.
Indiana kom af krafti inn í síðasta leik liðanna og leiddi með 26 stigum í hálfleik en samt tókst LeBron að draga lið sitt inn í leikinn á nýjan leik og kreista fram sigur. Fyrir heimamenn var því möguleikinn til staðar að vera sópað í sumarfrí í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Sami kraftur var í Pacers-mönnum í upphafi leiksins sem leiddu allan fyrri hálfleikinn en gestirnir frá Cleveland tóku yfir leikinn og sneru honum sér í hag eftir því sem leið á annan leikhluta og leiddu 58-52 í hálfleik.
Munurinn fór upp í þrettán stig í byrjun fjórða leikhluta en Pacers-menn náðu að komast aftur inn í leikinn og ná forskoti á nýjan leik stuttu fyrir leikslok en þá settu gestirnir aftur í gírinn og sigldu sigrinum heim.
LeBron James var eisn og oft áður stigahæstur í liði Cleveland með 33 stig ásamt því að taka tíu fráköst en í liði Indiana var Myles Turner stigahæstur með 20 stig.
Stórstjarna Indiana, Paul George, náði sér ekki á strik í leiknum en hann hefur verið orðaður frá félaginu og gæti þetta hafa verið síðasti leikur hans í Pacers-treyjunni.

