Milos Milojevic er hættur sem þjálfari Víkings R. í Pepsi-deild karla.
„Samkomulag hefur orðið á milli Knattspyrnudeildar Víkings og Milos Milojevic að hann láti af störfum sem þjálfari Pepsi deildar liðs félagsins frá og með deginum í dag. Ástæða starfslokanna er skoðanaágreiningur sem reyndist óyfirstíganlegur,“ segir í fréttatilkynningu frá Víkingi.
Milos, sem er 34 ára, tók við sem aðalþjálfari Víkings sumarið 2015 af Ólafi Þórðarsyni en þeir stýrðu liðinu í sameiningu framan af sumri. Milos var áður aðstoðarmaður Ólafs auk þess sem hann lék með Víkingi og þjálfaði yngri flokka félagsins.
Víkingur endaði í 7. sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra, á eina heila tímabili Milos við stjórnvölinn.
Víkingar sitja í 10. sæti Pepsi-deildarinnar eftir þrjá leiki. Næsti leikur liðsins er gegn öðru þjálfaralausu liði, Breiðabliki, á sunnudaginn.
Dragan Kazic og Hajrudin Cardaklija munu stýra Víkingi tímabundið að því er fram kemur í fréttatilkynningunni.
