Hans Rúnar Snorrason, kennari í Hrafnagilsskóla, sá vélina koma undarlega lágt. Bæði eiginkona hans og dóttir eru í flugnámi. „Ég hef sjaldan eða aldrei orðið jafn hræddur á ævinni. Ég sat á kaffistofunni og horfði á vélina koma nokkuð lágt yfir skólann fljúgandi í suður og taka krappa beygju þar. Maður heyrði á vélarhljóðinu að gangurinn var ekki eins og hann átti að sér að vera. Þannig að ég rauk út þegar ég sá hana taka nokkuð skarpa dýfu að mér sýndist og hljóp á vettvang,“ sagði Hans Rúnar.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa tók skýrslur af mönnunum tveimur auk stjórnenda skólans í gær og mun rannsaka hvað olli því að vélin missti afl.
Kristján Þór Víkingsson, skólastjóri Flugskólans, var fljótur á vettvang þegar hann heyrði af óhappinu. „Viðbrögð flugmanns eru skólabókardæmi um hvernig eigi að aðhafast í þessum aðstæðum. Það er ljóst að hann afstýrði frekari hættu. Nú munum við rannsaka þetta og skoða hvað fór úrskeiðis,“ sagði Kristján Þór.
Vélin, Piper Tomahawk, er smíðuð árið 1978 og í góðu viðhaldi að sögn skólastjóra. Til flugkennslu í dag hefur flugskólinn á Akureyri tvær sérhannaðar flugvélar af gerðinni Piper Tomahawk til umráða. Það er mat manna að þær hafi reynst mjög vel til verklegrar flugkennslu í gegnum tíðina.