Erlent

Comey var viss um að Trump myndi ljúga um fundi þeirra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
James Comey í sæti sínu í dag.
James Comey í sæti sínu í dag.
James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, segir ástæðu þess að hann hafi ákveðið að glósa fundi sína með Donald Trump Bandaríkjaforseta vera þá að hann óttaðist að forsetinn myndi ljúga um hvað færi þeirra á milli.

Þetta kom fram í máli Comey sem situr fyrir svörum frammi fyrir þingnefnd bandarísku öldungadeildarinnar þar sem hann lýsir samskiptum sínum við Trump.

Allt frá því að Bandaríkjaforseti leysti Comey frá störfum í maí síðastliðnum hefur mikið verið rætt og ritað um minnisblöð fyrrverandi forstjórans. Blöðin þykja ekki síst merkileg í ljósi þess að Comey glósaði ekki fundi sína með forvera Trump en Comey var ráðinn forstjóri FBI í stjórnartíð Baracks Obama.

Öldungadeildarþingmaðurinn Mark Warner spurði Comey í dag hvers vegna hann hafi tekið upp á því að glósa fundi hans með Trump.

Sjá einnig: Bein útsending: Domey situr fyrir svörum þingnefndar

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því,“ sagði Comey. „Kringumstæðurnar, umræðuefnið og manneskjan sem ég átti samskipum við,“ bætti hann við.

„Ég var í sannleika sagt áhyggjufullur um að hann [Trump] myndi ljúga um efni fundanna, svo ég hugsaði að það væri mikilvægt að skrásetja þá,“ sagði Comey í dag.

„Mig grunaði að sá dagur myndi koma þar sem ég þyrfti heimildir fyrir því sem gerðist, ekki einungis til að verja mig heldur einnig FBI. Ég átti í samskiptum við Obama. Ég talaði þó einungis tvisvar við hann á þremur árum og skrásetti það ekki. Ég átti einkafund með [forsetanum George] Bush en mér leið ekki eins og ég þyrfti að skrifa það hjá mér,“ sagði hann ennfremur.

„Mér finnst þetta mjög mikilvægt,“ sagði Warner að því loknu.

Fylgjast má með vitnisburði Comey í beinni útsendingu hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×