„Ég held að þetta tíðkist nú í flestum húsum sem teljast áhugaverð, þá er ég að tala um menningarhús og tónlistarhús, sem hafa eitthvað áhugavert að sýna og það sannarlega á við um Hörpu,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, í samtali við Vísi.
„Þetta er liður í því að taka hóflegt gjald fyrir góða þjónustu og það að fólk fari úr húsinu með meiri upplýsingar og meiri þekkingu á því fyrir hvað það stendur.“
Fólki býðst að fara í skipulagðar skoðunarferðir upp á hæðir hússins og skoða salina, þá sérstaklega Eldborg. Leiðsögn er innifalin í ferðunum þar sem sagt er frá tilurð hússins og hönnun, sögu þess og starfsemi. Ferðirnar kosta 1.500 krónur og eru á klukkutíma fresti. Hver ferð er um þrjátíu mínútur og gestum gefst svo svigrúm til að skoða sig um og taka myndir. Fyrstu ferðir hefjast klukkan tíu á morgnanna og sú síðasta er klukkan fimm á daginn.
Umkvartanir vegna fjölda ferðamanna
Svanhildur segir að ferðirnar séu liður í því að koma til móts við þann fjölda erlendra ferðamanna sem heimsækja húsið á hverjum degi en þær muni ekki hafa nein áhrif á gesti sem sækja viðburði eða veitingastaði hússins.„Hér koma kannski 3000 manns á dag og oft koma heilu holskeflurnar af fólki. Eins og ég segi þá tökum við öllum gestum fagnandi en á tilteknum dögum var húsið farið að minna á umferðarmiðstöð. Það var farið að hafa áhrif á gæðin og upplifun gesta og við fengum fjölmargar umkvartanir vegna þess.“

„Í samhengi við rekstrarstöðu hússins þá er það alveg klárt að við erum að horfa á allar góðar hugmyndir til að auka tekjur hússins og draga úr kostnaði. Þetta er einn liður, þetta er sannarlega ekki stór liður í því en þetta telur allt. Það væri ábyrgðarleysi af okkar hálfu, af hálfu stjórnenda hússins, að líta ekki til þess að taka eðlilegt endurgjald fyrir þá þjónustu sem er veitt í húsinu.“
Um er að ræða tilraunaverkefni sem verður í allt sumar og hófst þann 19. júní síðastliðinn. Í haust mun svo verða tekin ákvörðun um hvort þessu verður haldið áfram.
„Það fer mjög vel af stað. Við erum að vanda okkur mjög mikið við þetta og viljum gera þetta mjög vel. Við áttum okkur alveg á því að einhverjir kunna að hafa aðrar skoðanir á þessu en við eða telja einhverja annmarka á þessu en það er bara eins og það er. Við höfum ekki rekist á neitt á þessum tíma sem er neikvætt. Það eru bara mismunandi sjónarmið en mjög lítið um það að fólk hafi gert við þetta athugasemdir í okkar eyru.“