Skoðun

Er í lagi að ráðherrar ljúgi?

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Ég er einfaldur maður og held að lífið snúist í grundvallaratriðum um nokkra einfalda hluti: að vera góður við annað fólk, meta alla jafnt, ekki bara hugsa um eigin hagsmuni, að tala hreint út og segja satt. Og verði manni eitthvað á, þá á maður að leggja sig fram við að bæta fyrir það og leiðrétta. Ég held að þessi einfalda og bernska lífsspeki sé sérstaklega mikilvæg þeim sem taka þátt í stjórnmálum og enn frekar þeim sem falin er ábyrgð á hendur á þeim vettvangi.

Ég hef verið nokkuð hugsi yfir því undanfarið að eftir umrót síðustu ára í stjórnmálum; eftir búsáhaldabyltingu, kröfu um gegnsærri og heiðarlegri stjórnmál, eftir að tvær af síðustu þremur ríkisstjórnum hafa hrökklast frá völdum vegna þess að almenningur treysti þeim ekki lengur – eftir allt þetta ferli virðumst við vera stödd á þeim stað að það sé í lagi að ráðherra ljúgi að Alþingi.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra varð á dögunum uppvís að því að hafa sagt ósatt í pontu. Tilefnið var fyrirspurn Óla Halldórssonar, varaþingsmanns Vinstri grænna, um hvort fjárfestar hefðu sett sig í samband við ráðuneytið vegna Keflavíkurflugvallar. Þrátt fyrir að fjárfestar hefðu gert það, sagði Benedikt svo ekki vera. Og síðar sama dag áttu fjárfestar annan fund um einmitt þetta mál.

Öllum getur orðið á, en það hvernig við tökum á slíku segir ansi margt um það hver við erum. Benedikt þagði þunnu hljóði yfir ósannindunum og það var ekki fyrr en Stundin hafði samband að ráðherrann útskýrði málið á Facebook. Og skýringin? Hann vissi einfaldlega ekki af því hvað verið var að bardúsa í ráðuneytinu varðandi fundi um mál sem hefur verið þó nokkuð í umræðunni. Enn hefur Benedikt þó ekki útskýrt hvers vegna hann beið með að útskýra ósannindin þar til blaðakonan kom upp um hann.

Stjórnmálamenn eiga að vera þjónar fólksins, ekki herrar. Ráðherrar sem eru uppvísir að ósannindum, eiga að taka meiri ábyrgð á því en að henda í einn status sem segir ekki nema hálfa söguna.

 

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Sjá meira


×