Erlent

Trump hvetur Rússa til að bætast í hóp ábyrgra ríkja

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump ávarpaði fjöldafund á Krasinski-torgi í pólsku höfuðborginni Varsjá fyrr í dag.
Donald Trump ávarpaði fjöldafund á Krasinski-torgi í pólsku höfuðborginni Varsjá fyrr í dag. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti í dag rússnesk stjórnvöld til að hætta að grafa undan ástandinu í Úkraínu og fleiri ríkjum og hætta stuðningi við „fjandsamlegar stjórnir“ á borð við þær í Sýrlandi og Íran. Hvatti hann Rússa til að ganga til liðs við „samfélag ábyrgra rikja“.

Þetta sagði Trump þegar hann ávarpaði fjöldafund á Krasinski-torgi í pólsku höfuðborginni Varsjá fyrr í dag.

Dmitri Peskov, talsmaður Rússlandsstjórnar, hafnaði orðum Trump og sagði Rússa ekki vera grafa undan ástandinu í Úkraínu.

Trump er nú kominn til Þýskalands þar sem hann mun sækja leiðtogafund G20-ríkjanna í Hamborg. Trump mun á morgun funda með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í fyrsta sinn.

Í ræðu sinni tók Trump Pólland sem dæmi um ríki sem væri reiðubúið að verja vestræn frelsi, en pólsk stjórnvöld deila sýn Trump þegar kemur að innflytjendamálum og fullveldi.

Trump sagði að framtíð vestrænnar siðmenningar vera í húfi auk þess að hann varaði við þeirri ógn sem stafar af hryðjuverka- og öfgamönnum. 

„Reynsla Póllands minnir okkur á að það hvílir ekki bara á þeim leiðum sem í boði eru að verja Vestrið, heldur einnig á vilja Vesturlandabúa að verða yfirsterkari,“ sagði Trump. „Grundvallarspurning okkar tíma er hvort Vesturlönd búi yfir viljanum til að lifa af.“

Forsetinn ítrekaði jafnframt að Bandaríkin stæðu þétt með bandamönnum sínum í NATO og að Bandaríkin telji sig skuldbundin af 5. grein NATO-sáttmálans.

Að neðan má horfa á ræðu Trump í heild sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×