Búist er við allhvassri eða hvassri austanátt syðst á landinu seint í kvöld og fram eftir nóttu. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
Slíkur vindur getur verið varasamur fyrir farartæki sem eru viðkvæm fyrir vindi, til dæmis húsbíla og hjólhýsi. Þá er spáð talsverðri rigningu á suðausturlandi í nótt.
Veðurhorfur á landinu
Suðaustan 8-13 m/s og rigning S- og V-lands, en stöku skúrir NA-til. Allhvöss eða hvöss austanátt syðst á landinu seint í kvöld og fram eftir nóttu.
Austan og suðaustan 8-13 og víða rigning á morgun. Heldur hægari síðdegis og skúrir SV-lands, en styttir upp á N- og A-landi annað kvöld. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast norðan heiða.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag:
Suðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s, hvassast við suðurströndina. Skýjað með köflum og dálitlar skúrir, en hægari norðan- og austanlands, bjart að mestu, en stöku skúrir síðdegis. Hiti 9 til 16 stig, hlýjast norðaustanlands.
Á laugardag:
Norðlæg átt 5-13 m/s, hvassast vestast á landinu. Þurrt og bjart að mestu sunnantil á landinu, en skýjað að mestu, en úrkomulítið norðanlands. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast sunnanlands.
Á sunnudag:
Fremur hæg breytileg átt. Skýjað en úrkomulítið norðaustantil, en annars léttskýjað að mestu og yfirleitt þurrt. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast á SV- og V-landi.
Á mánudag:
Hæg breytileg átt eða hafgola og víða léttskýjað, en líkur á þokulofti við norðurströndina. Hiti yfirleitt 10 til 18 stig, hlýjast S-lands.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt. Skýjað eða skýjað með köflum og stöku skúrir. Milt í veðri.
