Í greininni Efficient pricing of tourist sites er sett upp verðformúla til að rannsaka hvernig best megi þróa gjaldtöku á ferðamannastöðum. Hingað til hafa flestir ferðamannastaðir landsins verið gjaldfrjálsir. Miklar opinberar umræður hafa þó átt sér stað um möguleika á gjaldtöku.
Niðurstaða greinarinnar er að aukinn fjöldi ferðamanna hafi neikvæð umhverfisleg áhrif á staðina og að ferðamenn njóti staða minna ef of margir eru á svæðinu. Þannig sé það hagur samfélagsins að takmarka aðgang með aðgangsgjaldi.

„Það skiptir líka máli hvort tiltekinn ferðamannastaður sé rekinn með það í huga að hámarka velferð þeirra sem koma á staðinn eða rekinn þannig að eigi að hámarka hreinar tekjur hans.“
Að mati Ragnars væri skynsamlegt að hámarka tekjur af erlendum ferðamönnum og velferð íslenskra ferðamanna. „Það myndi þýða mismunandi gjald fyrir erlenda ferðamenn og íslenska ferðamenn. En síðan má kannski ekki mismuna samkvæmt reglum Evrópusambandsins.“
Nýlega hafa sveitarfélög fengið leyfi til gjaldtöku vegna bílastæða. „Það má segja að það sé skref í rétta átt að heimila þessa gjaldtöku. En þá munu þeir að einhverju leyti vera einokunaraðilar og þá munu Íslendingar verða rukkaðir of mikið,“ segir Ragnar.
Hann bendir einnig á að eitt gjald sé borgað fyrir hvern bíl en misjafnt sé hve margir eru í hverjum. Troðningur og skemmdir á ferðamannastöðunum fari eftir fjölda ferðamanna.