Sport

Ari Bragi ætlar sér á Ólympíuleikana í Tókýó

Ari Bragi Kárason bætti í gær Íslandsmet sitt í 100 m hlaupi er hann kom í mark á 10,51 sekúndu á Coca Cola-móti FH. Metið bætti hann um einn hundraðshluta úr sekúndu.

„Þetta er frábært. Ég vil toga þessa tíma niður og maður á að halda áfram að stefna að markmiðunum sínum,“ sagði hann í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Stóra markmiðið er mótið í Tókýó 2020,“ bætti hann við og átti þar við Ólympíuleikana. Þangað ætlar hann sér að fara sem keppandi í 100 m hlaupi, einni allra frægustu grein leikanna.

„Ég á klárlega möguleika á að fara þangað. Ég ætla að leyfa mér að halda það. Þetta er eitthvað sem enginn Íslendingur hefur gert eftir að rafmagnstímatökur og vindmælingar hófust í hlaupum.“

Fyrir Ólympíuleikana í Ríó 2016 þurfti að hlaupa á 10,16 sekúndum til að fá sjálfkrafa þátttökurétt á leikunum. Hlaupa þarf á 10,12 sekúndum til að komast inn á HM 2017 sem fer fram í London síðar í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×