Það er mikil spenna í Inkasso-deildinni í fótbolta.
Í gær mættust tvö efstu lið deildarinnar, Fylkir og Keflavík, suður með sjó og fóru leikar 3-3.
Fylkismenn eru því áfram með tveggja stiga forskot á Keflavík á toppi deildarinnar. Þróttur er í 3. sætinu, einu stigi á undan Keflavík, og Þór, sem hefur unnið hvern leikinn á fætur öðrum að undanförnu, er í 4. sætinu, þremur stigum á eftir Keflavík.
„Þetta er hörkubarátta þarna uppi. Í upphafi móts bjóst maður ekki við Þórsurunum þarna. Núna eru þeir bara leik frá 2. sætinu,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, í Teignum sem var á dagskrá á Stöð 2 Sport HD í kvöld.
Reynir Leósson er á því að Fylkir og Keflavík séu með sterkustu liðin í Inkasso-deildinni.
„Þessi tvö lið verða að fara upp. Ég held að það muni sjá á þeim ef þau fara ekki upp. Þau verða að komast upp núna. Það er mikil pressa þarna,“ sagði Reynir.
„Öll liðin í efstu þremur sætunum ætla sér upp. Allt annað eru ævintýraleg vonbrigði,“ bætti Sigurbjörn við.
Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.
