
Vanvirt helgi
Flestum mun virðast það sem hér er sagt heldur fáránlegt, ekki síst þeim sem fara árlega að gröf Jóns Sigurðssonar, 17. júní (hann dó 1879). Enda er þetta tilbúningur. Þetta er þó ekki út í hött þegar litið er til þess að núna hafa verið grafin upp bein í gamla kirkjugarðinum í Kirkjustræti, svonefndum Víkurgarði, til að rýma fyrir hóteli. Beinin hafa verið tekin til rannsóknar, þar á meðal allt að 20 heillegar beinagrindur í heillegum kistum og mikið af öðrum mannabeinum, eftir því sem spurst hefur. Aðkoma að hótelinu verður um kirkjugarðinn, nánar tiltekið Fógetagarðinn, og á teikningum er sýnt hvar gestir geta neytt veitinga úti við í garðinum. Þeir sem standa að byggingu þessa 160 herbergja hótels segja að lögð verði áhersla á að fella það að umhverfi sínu og gætt verði vel að tengslum við fortíðina. Vantar bara að nafnið verði Hotel Skeleton.
Beinin voru grafin upp í fyrra í þeim hluta garðsins sem mun hafa verið bætt við litlu fyrir 1823 en yngri garðurinn við Suðurgötu var tekinn í notkun 1838. Jafnan er talið að þá hafi jarðsetningu að mestu verið hætt í Víkurgarði en þó finnast yngri dæmi, seinast frá 1883. Enginn aflaði gagna til að reyna að varpa ljósi á bein hvaða einstaklinga það voru sem upp voru grafin en kirkjubækur frá tímanum 1823 til 1838 ættu að geta veitt vísbendingar um það. Þetta gætu verið langafar og langömmur núlifandi fólks. Dæmi: Kona jarðsett um 1835 við Kirkjustræti kann að hafa dáið frá ungri dóttur sem eignaðist son 1875 og hann aftur barn 1925 sem gæti verið enn á lífi. Þetta væru aðeins þrír liðir frá konunni sem kann að hafa verið grafin 1835, hún væri þá langamma núlifandi manns. Flestum mun þykja ankannalegt að grafin séu upp bein langömmu þeirra og sett í geymslu án þess að þeir hafi nokkuð um það að segja.
Árið 1966 var ekki leyft að reisa hús í gamla kirkjugarðinum við Kirkjustræti og átti Kristján Eldjárn þjóðminjavörður þátt í þessu banni. Í fyrra voru bein hins vegar fjarlægð frá sama stað og borið við að þyrfti að rannsaka þau og varpa ljósi á lífskjör. Ástæður til að grafa upp bein til rannsóknar úr þekktum kirkjugörðum frá seinni tímum þurfa að vera brýnar, til þess þarf skýrar rannsóknarspurningar og rök og má nefna nokkur sjónarmið. Þetta er stundum leyft í útlöndum, t.d. þegar leikur grunur á um morð og bein eru þá rannsökuð, svo sem til að kanna hvort eitur hafi verið gefið. Eða þá að sérstakur sjúkdómur hafi orðið hinum liðna að aldurtila og læknum þyki akkur í að kanna beinin þess vegna. Að lokinni rannsókn er beinunum jafnan komið fyrir aftur á sínum stað. En engin sérstök rannsóknarrök voru til þess að grafa upp beinin í Kirkjustræti enda eru til margvíslegar heimildir um almenn lífskjör fólks á 19. öld. Það þurfti bara að koma fyrir hóteli og græða á ferðamönnum. Umræddum beinum ætti helst að koma fyrir aftur í gröfum sínum og setja viðeigandi minningarmark yfir.
Stundum finnast fornir kirkjugarðar þar sem enginn átti von á þeim og engin leið að vita bein hverra það eru sem birtast. Þar eru þá venjulega jarðneskar leifar frá tímum í Íslandssögunni þar sem lítið er vitað um lífskjör og forvitnilegt getur verið að kanna beinin þess vegna. Það er annað mál. En sjaldgæft mun vera eða einsdæmi að reist sé hús þar sem vitað er fyrirfram að var kirkjugarður. Slíka ósvinnu leyfa Reykvíkingar sér og helgast helst af því að skortir umræðu og vitund um hvað sé við hæfi og hvað sé óhæfa. Á meðan svo er leyfa menn sér margt.
Leitt er að tilheyra þeim kynslóðum sem heimilað hafa spjöll í Víkurgarði. En fyrir það má bæta, með því að marka austurmörk hins gamla kirkjugarðs við Kirkjustræti. Þar fyrir vestan og í gjörvöllum gamla Víkurgarði ætti að rækta fagran garð og búa þannig um að hann minni á gamalt hlutverk sitt með skýrum hætti. Þeim sem yrðu að hverfa frá áformum um að græða þarna á hótelrekstri munu bjóðast færi til þess annars staðar.
Höfundur er professor emiritus.
Skoðun

Farsæl framfaraskref á Sólheimum
Sigurjón Örn Þórsson skrifar

Austurland – þrælanýlenda Íslands
Björn Ármann Ólafsson skrifar

Gervigreindin stöðluð - öryggisins vegna
Hanna Kristín Skaftadóttir,Helga Sigrún Harðardóttir skrifar

Frelsi, framtíð og vistvænar samgöngur: Hvers vegna Ísland þarf að hugsa stærra
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir skrifar

Atvinnustefna er alvöru mál
Jóhannes Þór Skúlason skrifar

1984 og Hunger Games á sama sviðinu
Sigríður Svanborgardóttir skrifar

Mikilvægi aukinnar verndunar hafsvæða og leiðrétting
Hrönn Egilsdóttir skrifar

Betri leið til einföldunar regluverks
Pétur Halldórsson skrifar

Af Millet-úlpum og öldrunarmálum
Þröstur V. Söring skrifar

Charlie og sjúkleikaverksmiðjan
Guðjón Eggert Agnarsson skrifar

Nú þarf bæði sleggju og vélsög
Trausti Hjálmarsson,Ólafur Stephensen skrifar

Nútímaviðskipti og lögin sem gleymdist að uppfæra
Fróði Steingrímsson skrifar

Sjálfsvíg eru ekki óumflýjanleg
Sigurþóra Bergsdóttir skrifar

„Words are wind“
Ingólfur Hermannsson skrifar

Ert þú meðalmaðurinn?
Jóhann Óskar Jóhannsson skrifar

Enn einn kvennahópurinn sem þarf bara að vera duglegri að harka af sér?
Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Flumbrugangur í framhaldsskólum
Jón Pétur Zimsen skrifar

Miðbær Selfoss vekur ánægju
Bragi Bjarnason skrifar

PCOS: Er ódýrara að halda heilsu eða meðhöndla veikindi?
Elísa Ósk Línadóttir skrifar

Opinn og alþjóðlegur: Krísa erlendra nemenda við íslenska háskóla
Melissa Anne Pfeffer skrifar

Be Kind - ekki kind
Aðalheiður Mjöll Þórarinsdóttir ,Perla Magnúsdóttir skrifar

Illa verndaðir Íslendingar
Sighvatur Björgvinsson skrifar

Viðreisn afhjúpar sig endanlega
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Heimalestur – gæðastund en ekki grátur og gnístan tanna
Svava Þ. Hjaltalín skrifar

Frelsi til sölu
Erling Kári Freysson skrifar

Vangaveltur um íslenskt barnaefni – Hvers vegna skiptir það máli að börn heyri sjálf sig?
Tinna Björg Kristinsdóttir,Valdimar Gylfason skrifar

Móðir í Breiðholti hjólar 5.000 kílómetra
Sara Björg Sigurðardóttir skrifar

Viðreisn lætur verkin tala
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar

Sterkara framhaldsskólakerfi
Guðmundur Ingi Kristinsson skrifar

Hægfara endalok sjónvarps útsendinga fyrir móttöku á loftneti á Íslandi
Jón Frímann Jónsson skrifar