Erlent

Dregur hæfni Trump til að gegna embætti í efa

Kjartan Kjartansson skrifar
James Clapper var með böggum hildar yfir fjöldafundi Trump í Arizona í gær.
James Clapper var með böggum hildar yfir fjöldafundi Trump í Arizona í gær. Vísir/AFP
James Clapper, fyrrverandi yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar, dregur hæfni Donalds Trump til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna í efa eftir furðulega ræðu sem hann hélt í Phoenix í gær.

Trump hótaði meðal annars að loka alríkisstjórninni til að knýja fjárveitingar fyrir landamæramúr út úr Bandaríkjaþingi, kenndi fjölmiðlum um flest sem miður hefur farið hjá ríkisstjórn hans og ýjaði að því að hann myndi sýkna sýslumann sem var dæmdur fyrir að óhlýðnast dómstólum.

„Ég set virkilega spurningamerki við getu hans, hæfni hans, til að gegna þessu embætti,“ sagði Clapper við CNN-sjónvarpsstöðina í morgun.

Gæti ráðist á Norður-Kóreu í bræði

Þá sagðist Clapper hafa hugsað til kjarnorkuvopnanna sem Trump ræður yfir þegar hann hlustaði á ræðu forsetans í Phoenix í gær, að því er segir í frétt Washington Post.

„Hann gæti ákveðið að gera eitthvað í Kim Jong-un í bræðiskasti, það er í raun og veru mjög fátt sem stendur í vegi hans,“ sagði Clapper og vísaði til deilna Trump við leiðtoga Norður-Kóreu.

Clapper hefur starfað við her og leyniþjónustu Bandaríkjanna alla sína stafsævi og gegnt trúnaðarstörfum í ríkisstjórnum jafnt demókrata og repúblikana. Hann lét af störfum sem yfirmaður leyniþjónustunnar í nóvember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×