Erlent

Forstjóri FBI segir að Hvíta húsið hafi ekki reynt að hafa áhrif á rannsókn

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump skipaði Wray í stað James Comey sem hann rak vegna rannsóknar á meintu samráði framboðs Trump við Rússa.
Trump skipaði Wray í stað James Comey sem hann rak vegna rannsóknar á meintu samráði framboðs Trump við Rússa. Vísir/AFP
Christopher Wray, nýr forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, segist ekki hafa orðið var við nokkrar tilraunir af hálfu Hvíta hússins til að skipta sér af rannsókn sem nú stendur yfir á mögulegu samráði forsetaframboðs Donalds Trump við Rússa.

„Ég get sagt með mikilli vissu að ég hef ekki tekið eftir nokkrum fnyk af tilraunum til afskipta af rannsókninni,“ segir Wray en þetta er í fyrsta skipti sem hann tjáir sig opinberlega frá því að hann tók við starfinu fyrir fimm vikum.

Wray hefur heitið því að segja af sér frekar en að láta undan þrýstingi frá Trump forseta um að láta rannsóknina niður falla, að því er segir í frétt Washington Post.

Á meðal þess sem Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, sem tók við rannsókninni af FBI fyrr á þessu ári kannar er hvort að Trump hafi hindrað framgang réttvísinnar þegar hann rak James Comey, forvera Wray, úr starfi forstjóra FBI.

Lýsti Trump því í viðtali eftir á að hann hefði rekið Comey vegna rannsóknarinnar á meintum tengslum hans við Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×