Innlent

Sjúkratryggingar greiða aðeins tvær ferðir af allt að þrjátíu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Meðferð mannsins er aðeins í boði í Reykjavík.
Meðferð mannsins er aðeins í boði í Reykjavík. vísir/vilhelm
Karlmaður búsettur á landsbyggðinni mun fá tvær ferðir af átján greiddar hjá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ). Frekari kostnaðarþátttöku var hafnað af SÍ og sú ákvörðun staðfest af úrskurðarnefnd velferðarmála (ÚNV).

Maðurinn var staddur í Reykjavík í fyrra þegar hann varð fyrir slysi sem hafði í för með sér að hann missti löngutöng vinstri handar, brákaði baugfingur og litlifingur fór úr lið. Til að bjarga baugfingri hefur hann þurft sinkmeðferð en hún er aðeins í boði í Reykjavík. Hefur hann af þeim sökum átján sinnum þurft að gera sér ferð til höfuðborgarinnar.

Hann fór því þess á leit við SÍ að tryggingarnar tækju þátt í kostnaði vegna ferða til og frá borginni. SÍ hafnaði bóninni þar sem aðeins væri heimilt að greiða fyrir tvær slíkar ferðir á ári.

Maðurinn kærði þá niðurstöðu til ÚNV enda hafði hann farið átján ferðir og fyrirséð að þær yrðu um það bil þrjátíu alls.

ÚNV tók kæru mannsins ekki til greina heldur féllst á sjónarmið SÍ. Í reglugerð um ferðakostnað sjúklinga innanlands kæmi fram að tvær ferðir árlega fengjust greiddar. Undantekning heimilaði að fleiri ferðir væru greiddar en til þess þyrfti tilgreinda alvarlega sjúkdóma sem eru taldir upp í reglugerðinni. Meðferð mannsins þótti ekki falla undir þá undantekningarheimild og þarf hann því að bera kostnaðinn sjálfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×