Bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs, sem keypti fyrr á árinu 2,6 prósenta hlut í Arion banka, fer með atkvæðarétt í bankanum, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi Kaupskila, dótturfélags Kaupþings. Atkvæðaréttur fylgir hins vegar ekki eignarhlutum vogunarsjóðanna Attestor Capital, Taconic Capital og Och-Ziff Capital að svo stöddu, en þeir keyptu samanlagt 26,6 prósenta hlut í bankanum.
Goldman Sachs og vogunarsjóðirnir þrír keyptu samanlagt tæplega 30 prósenta hlut í Arion banka af Kaupþingi fyrir ríflega 48,8 milljarða króna í mars síðastliðnum. Í kjölfarið sendi Fjármálaeftirlitið frá sér tilkynningu þar sem meðal annars kom fram að keyptu eignarhlutunum fylgdi ekki atkvæðaréttur að svo stöddu.
Eftirlitið leiðrétti tilkynninguna skömmu síðar og tók þá fram að „Fjármálaeftirlitið hefur vitneskju um þetta atriði að því er varðar þrjá stærstu aðilana, en hefur ekki upplýsingar um þetta atriði varðandi þann fjórða“.
Í ársreikningi Kaupskila fyrir síðasta ár kemur fram að félagið hafi fengið 26,58 prósent af atkvæðarétti í Arion banka sem að öðrum kosti hefði flust til kaupendanna, þ.e. vogunarsjóðanna þriggja, við söluna þar til kaupendurnir hafi verið metnir hæfir eigendur eða bankinn skráður á markað. Hlutum Goldman Sachs fylgir hins vegar atkvæðaréttur í bankanum.
Eins og greint var frá í Markaðinum í síðasta mánuði munu hvorki vogunarsjóðirnir né Goldman Sachs bæta við hlut sinn í Arion banka síðar á árinu, en þeir hafa kauprétt að um 22 prósenta hlut til viðbótar sem gildir til 19. september.
Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.
Goldman Sachs fer með atkvæðarétt í Arion banka
Kristinn Ingi Jónsson skrifar

Mest lesið

„Rán um hábjartan dag“ kom ekki á óvart
Viðskipti innlent



Óttast ekki komu Starbucks til Íslands
Viðskipti innlent

Hömlulaus einokun á Keflavíkurflugvelli
Viðskipti innlent

Fríhöfnin fær nýtt nafn og verður lokað um tíma í vikunni
Viðskipti innlent

Þórdís til dómsmálaráðuneytisins
Viðskipti innlent

Tollar Trump á kvikmyndir „mjög sérstakt útspil“
Viðskipti innlent


„Í markaðshagkerfi þurfa menn bara að synda“
Viðskipti innlent