Björt Ólafsdóttir kynnti tillögurnar á ársfundi Bjartrar framtíðar í gær. Miðað er við að breyta reglugerðum þannig að veitingamönnum verði í sjálfvald sett hvort þeir leyfi gæludýr á sínum stöðum.
„Jú mér finnst þetta mjög tímabært. Mér finnst þetta sjálfsagt mál,“ segir Björt.
Einungis um einkarekna staði að ræða
Hún segir þó að enginn verði þvingaður til að umgangast gæludýr.

Björt telur hins vegar tímabært að minnka afskipti hins opinbera af rekstri einkaaðila hvað þetta varðar.
„Við höfum kannski verið að banna hluti sem ættu að vera undir sjálfsákvörðunarrétti einstaklinganna komið. En auðvitað skiptir máli að við horfum á öll sjónarmið í þessum efnum og vegum og metum hvort við séum að sinna almannahag. Hvað þetta varðar, hvað veitingastaði varðar, ef veitingamenn vilja bjóða gæludýr gesta á staðnum velkomin þá ætlum við einfaldlega að leyfa það.“