Fréttastofa RÚV greindi fyrst frá þessu. Ákvörðunina tekur Benedikt vegna vensla við Benedikt Sveinsson sem mælti með því að Hjalti Sigurjón Hauksson hlyti uppreist æru. Benedikt Sveinsson er, eins og áður hefur komið fram, faðir forsætisráðherra.
„Hann tilkynnti það við upphaf fundar ráðgjafaráðs í dag að hann teldi að í ljósi sinna tengsla við aðila máls að þá væri réttast og heppilegast að hann væri ekki talsmaður flokksins í þessu tiltekna máli,” segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra í samtali við Vísi.’

Þorsteinn vill árétta það að af hálfu fundarmanna nyti Benedikt fulls trausts sem formaður og engar efasemdir væru þar að lútandi.
Vilja ganga til kosninga
„Atburðarásin hefur verið gríðarlega hröð og staðan er alvarleg,” segir Þorsteinn sem segir brýnt að leysa úr þeirri stöðu sem komin er upp. „Sú afstaða okkar er ítrekuð að við þessar kringumstæður væri réttast að ganga til kosninga. Um leið er nauðsynlegt, vegna þessa máls alls, ekki síst vegna brotaþola í málinu, að það yrði tekið til gagngerrar skoðunar, kannað ofan í kjölinn og allar upplýsingar lagðar á borð,” segir Þorsteinn.
Vaxandi óþol gagnvart meðhöndlun kynferðisbrota
Spurður hvort hann sé sama sinnis og flokkssystir hans Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem sagði á Twittersíðu sinni að stjórnarslitin sýndu að fólk hefði fengið nóg af leyndarhyggjukerfi þar sem “ofbeldi gegn konum og börnum er tekið af léttúð og andvaraleysi,” svarar Þorsteinn að það sé vaxandi óþol í samfélaginu gagnvart meðhöndlun slíkra mála.
„Í þessum tilteknu málum verður það bara að vera alveg skýrt að allar upplýsingar sem máli skipta hafi verið veittar og liggi fyrir þannig að maður geti tekið afstöðu til málsmeðhöndlunar stjórnvalda og það er auðvitað kjarni málsins í þessu.”
Ekki náðist í Benedikt Jóhannesson við gerð þessarar fréttar.